Saga Tónagulls

Tónagull var stofnað af Helgu Rut Guðmundsdóttur (B.Ed., M.A., Ph.D). Hún er menntuð sem tónmenntakennari frá KHÍ 1992 og lauk síðar meistara og doktorsnámi í menntunarfræðum tónlistar (music education) frá McGill háskóla í Montreal, Kanada. Helga Rut er í fullu starfi sem prófessor í tónmennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar leiðbeinir hún tilvonandi kennurum um tónlist með börnum. Helga Rut stundar einnig rannsóknir á sviði tónlistarmenntunar og birtir reglulega greinar í innlendum og erlendum fræðiritum.

Fyrsta Tónagulls námskeiðið var haldið í janúar 2004 og hefur námskeiðum sífellt fjölgað í samræmi við eftirspurn síðan. Nú hafa mörg hundruð börn farið í gegn um Tónagulls námskeið og sömu fjölskyldurnar koma aftur þegar nýir meðlimir fæðast.

Hugmyndafræðin á bak við Tónagull er að tónlist sé meðfædd þörf og að tónlistaruppeldi eigi að miðast við tónlist MEÐ börnum en ekki tónlist FYRIR börn. Þess vegna er virk þátttaka í tónlist lykil atriði í Tónagulli þar sem foreldrar og börn njóta þess að þroskast saman með tónlist á markvissan hátt.

Tónagull spratt ekki upp í tómarúmi heldur varð til vegna áhrifa erlendis frá þar sem svipuð námskeið meðal ungra barna eru algeng. Á námsárum sínum tók höfundur Tónagulls þátt í tónlistarnámskeiði fyrir 0-9 mánaða börn ásamt ungri dóttur sinni. Þar var fræi sáð og ákvað hún í framhaldi að ef svipað yrði gert á Íslandi væri mikilvægt að vinna með íslenskan þjóðararf en ekki þýða bara erlendar þulur og söngva.

Eftir 2ja ára þróunarvinnu varð námskeiðsefni og geisladiskur Tónagulls til. En geisladiskurinn er afar mikilvægur hluti af þátttöku í Tónagulli svo hægt sé að hlusta á efnið heima milli tíma og eftir að námskeiði lýkur.

  Nánar um höfund Tónagulls